Það er sannleikur í lífinu, menn ljúga
frá æskunni á vængjum vonar fljúga.
Það er í eðli sumra á ystu brún að standa,
fyrst þá sem þeim finnist þeir anda.
Gefast aldrei upp þó óttinn þeim mæti
í hliðargötum frá regnbogans stræti.
Sumar manneskjur sannleikann þrá
og aðrir þola hann ekki, vilja aldrei sjá.
Sumir erfa áföll forfeðra sinna
meðan aðrir hamingju í hjarta finna.
Sagt er að sáttin öllum mönnum mæti
að morgni dags á regnbogans stræti.
Sýndu mér ást í fangi blárra daga
fagnaðu sem væri ég gömul saga
við glugga opinn lesinn fyrir löngu síðan
og í brjósti þínu logaði ástríðan.
Ég trúi einn dag aftur lausnin þér mæti
undir krónum trjánna við regnbogans stræti.
Þú saknar eldsins á einhvern skrítinn máta
augun þín brosa en hjartað er að gráta
þó svo lífið faldi leyndarmál þín
öskur sársaukans í hlustum ykkar hvín.
Veit ég að réttlætið mun stíga niður fæti
og tala máli þínu á regnbogans stræti.
Þeir settu verðmiða á kærleikann og drógu
um höfuð frelsisins gaddavír og hlógu.
Þeir eru að gjaldfella orðin eitt af öðru
og líktu frelsinu við eiturnöðru.
Og fyrir sannleikann brugðu þeir fæti
sorgin býr líka við regnbogans stræti.
Stanslaust hungur áfram veginn okkur rekur
rútínuþjáning þreytt taugakerfið skekur
og við þráum ástin sé eina varðan
þó flestir berja höfuð sitt við steininn harðan.
Fyrir þá þjáðu verður alltaf laust sæti
ef leið þeirra liggur á regnbogans stræti.
Allar óskir regnbogans ávallt bíða
eftir þeim sem þurftu sársaukann að líða
ást þeirra er minnisvarði, mildi vinur minn,
um þá menn sem tóku öll höggin á sína kinn.
Á Seyðisfirði um nótt léttir á fæti
máluðu nokkrir strákar regnbogans stræti.
Og við fæðumst, verðum gömul og við förum.
Verða ennþá ósögð orð á köldum vörum?
Verður okkar hinsti förunautur lygin?
Verður hann ómálaður ennþá strekktur striginn?
Það er sagt í hinsta andvarpinu mætir
þú sjálfum þér á regnbogans stræti.